Ársfundur SN

Í dag var haldinn ársfundur Starfsendurhæfingar Norðurlands vegna starfsársins 2018.

Geirlaug og Jakobina

Árið var að mörgu leyti með svipuðu sniði og fyrri ár og er ársskýrslan birt hér á heimasíðunni.

Það urðu umtalsverðar breytingar í starfsmannahópnum en þrír nýir starfsmenn komu til liðs við félagið og tveir létu af störfum. Geirlaug G. Björnsdóttir sem gengt hefur stöðu framkvæmdastjóra frá upphafi, hætti störfum og við keflinu á haustdögum tók Jakobína Elva Káradóttir.

Fjöldi einstaklinga í þjónustu hjá SN árið 2018 voru 117 og bárust allar tilvísanir frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Það sem einkennt hefur undanfarin starfsár er að þjónustuþyngd þeirra mála sem vísað er til SN hefur aukist. Líkt og undanfarin ár glíma flestir í notendahópi SN við fjölþættan vanda og þurfa þar af leiðandi á langtíma endurhæfingu að halda. Þetta kallar á aukna einstaklingsmiðaða- og fjölþætta nálgun. Einnig kallar þetta á samfellda þjónustu í lengri tíma með aðkomu margra fagstétta og samvinnu á milli kerfa. Sem fyrr er mikilvægt að horfa heildrænt á veitingu þjónustunnar og mæta notandanum þar sem hann er staddur. Til að vel megi fara þarf að tryggja öruggan rekstrargrundvöll svo hægt verði að bjóða  upp á enn fjölbreyttari úrræði.

IngvarStarfsendurhæfing Norðurlands hefur á að skipa fjölstéttateymi sem hefur víðtæka reynslu á sviði starfsendurhæfingar og er lykilinn að góðri vinnu og árangri SN í gegnum tíðina. Starfsmenn leggja sig fram við að mæta þörfum hvers einstaklings og finna þá leið sem hentar honum best. Á árinu 2018 stunduðu þátttakendur SN hópefli og sjálfsstyrkingu, líkamsþjálfun og heilsueflingu svo eitthvað sé nefnt. Einnig nýttu margir sér sálfræðiviðtöl, félagsráðgjöf, heilsuráðgjöf, iðjuþjálfun, fjármálaráðgjöf, markþjálfun  og fleira hjá sérfræðingum SN. Þátttakendur fengu að auki reglulega stuðningsviðtöl hjá ráðgjöfum SN en þeir fylgjast með framvindu endurhæfingarinnar.

Starfsfólk SN vinnur að gerð aukinna úrræða til þess að mæta þörfum samfélagsins fyrir starfsendurhæfingu. Við horfum björtum augum til næsta starfsárs og hlökkum til að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni. 

stjorn

Mynd 1:
Geirlaug Björnsdóttir og Jakobína Elva Káradóttir

Mynd 2:
Ingvar Þóroddsson

Mynd 3:
Stjórnarmeðlimir SN, talið frá vinstri: 
Ingvar Þóroddsson, Jakobína Elva Káradóttir, framkvæmdarstjóri, Þórarinn Sverrisson, áheyrnarfulltrúi, Valgeir Magnússon,  Bernard Hendrik Gerritsma og Soffía Gísladóttir. Á myndina vantar Guðnýju Friðriksdóttir og Guðrúnu Sigurðardóttir.