Eymundur Lúter Eymundsson

Kvíði, félagsfælni og brottfall úr námi.

Strax í barnaskóla fann ég fyrir miklum kvíða og skammaðist mín fyrir sjálfan mig. Þetta fór þó ekki að hafa veruleg áhrif á mig fyrr en ég varð ellefu tólf ára gamall og gelgjuskeiðið að hefjast. Þá var ég kominn með mikla félagsfælni. Vanlíðanin var stöðug og ég var farinn að fela ástandið með trúðslátum til að enginn sæi hvernig mér liði. Ég átti erfitt með að læra, erfitt með að einbeita mér og sá engan tilgang með náminu. Ég var jafnframt reiður yfir því hvernig mér leið, reiður í eigin garð. Ég þorði heldur ekki að tala um líðan mína við nokkurn mann, var svo hræddur um að gert yrði lítið úr mér. Ég þorði ekki í framhaldsskóla strax eftir grunnskólann og ákvað að bíða í ár til þess að geta verið samferða æskuvini mínum. Ég hætti svo eftir 2 mánuði þar sem ég entist bara ekki lengur. Ég sagði vini mínum að þetta nám væri ekki fyrir mig því ég þorði ekki að segja neinum, ekki einu sinni honum, hvernig mér leið í raun og veru. Mér finnst mikilvægt að vekja máls á þessu í dag vegna umræðunnar um brottfall í framhaldsskólum.  

Á unglingsárunum tókst mér að stunda íþróttir en ég átti mjög sjaldan bein samskipti við fólk. Vegna fótboltans leit ég ef til vill út fyrir að fúnkera ágætlega en ég þorði aldrei að taka þátt félagslega. Ég fór aldrei með félögunum í bíó eða neitt svoleiðis. Ég þorði aldrei að fara og þorði aldrei að segja þeim af hverju það var. Ég vissi heldur í rauninni ekki hvað var að mér. Ég réði ekkert við taugakerfið, ég roðnaði og klökknaði í tíma og ótíma og það gerðist bara án þess ég réði nokkru um það. Ég notaði áfengi heilmikið til að slá á líðanina. Þegar félagarnir voru að drekka þá gat ég komið og var alltaf búinn að drekka í mig kjark til að komast til þeirra. Ég var alltaf að flýja. Alltaf þegar ég lagðist til svefns á kvöldin kveið ég fyrir að vakna daginn eftir, kveið fyrir öllum deginum, kveið fyrir að þurfa að hitta annað fólk. Einhvern veginn tókst mér alltaf að leyna þessu fyrir fjölskyldunni. Ég var fjórði í röðinni af sex systkinum og reyndi eins og ég gat að taka ekki þátt í fjölskyldulífinu. Ég fór ekki einu sinni út í búð. Átján ára var ég farinn að borga yngstu systur minni fyrir að út í búð og í bankann fyrir mig en hún var níu ára. Allir héldu bara að ég væri svona góður að skaffa henni tækifæri til að vinna sér inn pening og áttuðu sig ekki á ástandinu á mér. Enn þann dag í dag veit ég ekki af hverju ég er á lífi, vegna þess að frá tólf, þrettán ára aldri herjuðu sjálfsmorðshugsanir á mig á hverjum degi.

Félagsfælnin og kvíðinn jókst með árunum. Í vinnunni þá forðaðist ég flest samskipti, fór ekki í kaffi eða mat og mætti ekki á fundi. Ég fór illa með mig á þessum árum og vann eins og brjálæðingur. Ég vann lengstaf í bjórframleiðslunni hjá Víkingi á Akureyri. Ég var einn á lagernum, sá um allt þar, og þótt ég fengi mörg tilboð um önnur störf þorði ég aldrei að hreyfa mig út af lagernum.

Lífið tók aðra stefnu.

Árið 2004 tók lífið aðra stefnu. Ég fór í aðgerð á mjöðm og þurfti í kjölfarið að fara í verkjaskólann á Kristnesi. Ásamt því að takast á viðlíkamlega verki, þá fékk ég þar mína fyrstu fræðslu um kvíða, félagsfælni og þunglyndi. Þá má segja að ferð mín til bata hefjist, því þegar ég fór að lesa mér til um þessa hluti rann rann upp fyrir mér ljós: Ég var þarna að lesa um sjálfan mig frá a til ö og skildi af hverju mér hafði liðið svona illa allar götur frá því ég var krakki. Þetta var algjör opinberun og þá sá ég líka að ég átti von um að losna úr þessu víti. Í kjölfarið opnaði ég á þetta við heimilislækni minn og sótti tíma til sálfræðings. Til margra ára hafði ég notað áfengi til að drekka í mig kjark og ég ákvað því að fara í áfengismeðferð á Vogi í janúar 2006. Þegar ég kom þangað inn var eins og ég fengi einhvern kraft í mig og ég hugsaði að nú hefði ég tækifæri til að eignast eitthvert líf. En til að eignast það líf þyrfti ég að vinna fyrir því. 

Opinn fyrir hjálpinni í SN.

Árið 2007 byrja ég hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands. Á þeim tíma var ég fullorðinn maður en mér leið eins og unglingi því ég var staðnaður í þroska. Félagsfælnin rændi mig svo miklu. Ég var ekki þátttakandi í samfélaginu. Ég var því mjög opinn fyrir hjálpinni sem mér bauðst í SN. Þar fann ég fyrir trausti og skilningi og kynntist alls konar fólki sem var að takast á við sína hluti og sumir á sama róli og ég. Ég þekkti bara erfiðleika og í Starfsendurhæfingunni fékk ég mörg verkfæri til þess að vinna með þá líðan og reynslu. Ég þjáðist af félagsfælni á háu stigi og fór að bera skilning á það að ástand sem hefur verið að byggjast upp frá barnæsku leysist ekki upp yfir nótt. Það tekur sinn tíma að vinna sig út úr því.

Það skiptir svo miklu máli að finna svona gott viðmót og að borin er virðing fyrir manni sem einstaklingi. Í SN fór ég að uppgötva að ég hefði ýmsa styrkleika og fékk tækifæri til þess að vinna með þá og þroska sjálfan mig. Ég þurfti bara tíma og stuðning og það fékk ég. Ég lærði svo margt varðandi það að takast á við sjálfan mig og lífið. 

Á þessum tíma var boðið uppá námsleið í Starfsendurhæfingunni og ég nýtti mér það. Í kjölfarið fór ég að leita fleiri leiða til þess að vinna með sjálfan mig. Haustið 2008 fer ég því suður á Reykjalund. Þá var ég kominn á þann stað í lífinu að mér fannst ég hafa allt að vinna, vildi skilja allt þetta neikvæða að baki og einblína fram á veginn, með jákvæðnina að leiðarljósi. 

Grófin geðverndarmiðstöð 

Þegar ég var í Starfsendurhæfingu Norðurlands var mér bent á Ráðgjafaskóla Íslands í Reykjavík. Einnig hafði mér verið bent á Hugarafl og ég fór að lesa mér til um hugmyndafræðina sem sá félagsskapur byggði á og leist mjög vel á hana. Ég fór þangað í heimsókn og sá að þarna var samankomið fólk eins og ég, fólk sem tók mér af virðingu og ég ákvað að stunda þennan félagsskap meðan ég væri í náminu í Ráðgjafaskólanum. Árið 2012 flyt ég svo aftur norður og þá var sprottinn upp grasrótarhópur sem byggði á svipaðri hugsjón og Hugarafl. Ég var beðinn um að taka þátt í því. Ég fór líka í félagsliðanám, sem var nám fyrir þá sem vilja vinna með fólki sem á í erfiðleikum með sjálft sig eins og ég hef sjálfur glímt við. Við opnuðum svo Grófina geðverndarmiðstöð á Akureyri, 10. október 2013 á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn. Um það leyti fór saga mín að spyrjast út í samfélagið. Ég hef síðan verið mikið í fjölmiðlum, flutt fyrirlesta, skrifað greinar og svo framvegis. Þetta hefur verið og er mikil vinna, að opna á umræðuna um þá sem glíma við geðræn vandamál. Fólk er almennt mjög þakklátt fyrir að fá að heyra um þessi mál frá fólki sem þekkja þau af eigin reynslu. Það hefur líka sýnt sig að þörfin fyrir þessa fræðslu er mjög brýn, enda vandamál af þessu tagi mjög algeng meðal barna og unglinga.

Nýt þess í dag að vera til.

Ég er sáttur við sjálfan mig í dag. Það finnst mér skipta mestu máli. Ég hef verið einfari allt mitt líf og liðið illa. Núna líður mér ekki lengur illa þegar ég er einn með sjálfum mér. Ég er orðinn  virkur þátttakandi í lífinu og ég kvíði ekki lengur að vakna á morgnana og eiga allan daginn framundan. Þvert á móti þá nýt ég þess í dag að vera til. Ég á líf.

 

Reynslusaga Eymundar er samsett úr viðtali við Hrafnhildi Reykjalín hjá SN og viðtali  við Pál Kristinn Pálsson, sem birtist á Heilsutorgi 6. ágúst 2017.