Sæunn S Jóhannsdóttir

Þá hrundi heimurinn

Í mars mánuði árið 1997 datt ég í stiga og ökklabrotnaði. Í aðgerðinni kom í ljós að þetta var mjög alvarlegt brot, ökklinn hékk á einhverjum sinum og brjóskeyðing í honum. Fyrstu vikurnar eftir að ég kom heim af sjúkrahúsinu gat ég ekki hugsað um heimilið. Maðurinn minn vann ekki á staðnum sem við bjuggum á og var ekki heima nema um helgar.

Það sem hélt mér gangandi var hugsunin um að þetta væri tímabundið og þegar ég yrði búin að jafna mig gæti ég farið að vinna aftur og allt yrði eins og áður. Ég gat samið við vinnuveitendur mína um að byrja aftur í hlutastarfi og smám saman að lengja vinnudaginn. Þar sem ég var að vinna í fiskverkun var þetta mikið álag á ökklann og ég þurfti alltaf að taka sterkar verkjatöflur til að halda mér gangandi. Eftir ca. 3 mánuði bannaði læknirinn mér að vinna. Þá hrundi heimurinn. Eftir örfáar vikur var ég komin á svefnlyf og þunglyndislyf. Smá saman bættust við fleiri og fleiri lyf og þegar mest var voru þau fimm. Þegar maður er komin á svona mörg lyf, er maður þreyttur og sljór. Ég lokaði mig meira inni og þurfti oft að leggja mig.

Fordómar í samfélaginu

Ég fann fyrir fordómum í samfélaginu fyrstu árin eftir slysið. Ég reyndi að bera mig vel og haltra sem minnst. Ég fór helst ekki í búð ef ég átti slæman dag, þá lokaði ég mig bara inni vegna vanlíðunar. En á góðum dögum tók maður sig til, fór út og reyndi að bera sig vel og láta sem minnst á bera að eitthvað væri að. Af þessum sökum fékk ég það oft á mig að það væri ekkert að mér vegna þess að það sást lítið sem ekkert.

Eftir slysið er ég með skerta göngugetu og er með merki sem gefur mér rétt á að leggja í stæði fyrir fatlaða. Ég er nánast hætt að nota merkið eftir að hafa lent í því að vera elt inní verslun af ókunnugri manneskju sem var með mjög svo dónalega athugasemd yfir því að ég skildi leggja í stæði fyrir fatlaða. Ég var búin að ganga á milli lækna og fara í tvær aðgerðir sem lítinn árangur höfðu borið. Þá vildi einn læknirinn festa ökklann sem þýddi það að hann yrði alveg staur en gat ekki lofað að verkirnir minnkuðu eða hyrfu alveg. Mér þótti það ekki þess virði þar sem ég gat ekki verið örugg með að losna við verkina en þá fékk ég að heyra það frá lækninum mínum að það væri ekkert að mér af því að ég var ekki hölt. Eftir þessi ummæli pantað ég mér tíma hjá geðlækni til að láta athuga hvort ég væri veik á geði.

Eftir að hafa farið í þrjá tíma var ég útskrifuð hjá honum , ekki geðveik. Hann gekk í að ég fór á örorku en fram að þessum tíma var ég á endurhæfingalífeyri og seinustu mánuðina fékk ég lífeyrin tvo mánuði í senn. Ekki bætti líðanina að þurfa að vera með fjárhagsáhyggjur, vita ekki hvort einhver greiðsla fengist í næsta mánuði.

Erfiður tími fyrir alla fjölskylduna

Þessi tími var mjög erfiður fyrir alla fjölskylduna. Þegar manni líður illa, er með verki, þunglyndi og á lyfjum sem sljóvga mann er erfitt að taka sig til og fara út á meðal fólks. Þetta hefur heilmikil áhrif á fjölskyldulífið.  Ég fór ekki út nema í nauðsyn vegna þess að mér fannst mjög óþægilegt að vera innan um aðra. Þegar einhverjir viðburðir voru í stórfjölskyldunni, veislur, matarboð eða fjölskyldan að hittast, kom oft fyrir að við mættum ekki vegna vanlíðan minnar. Þegar ég lít til baka þá held ég að ég hafi í sumum tilfellum notað heilsu mína ómeðvitað sem ástæðu fyrir að þurfa ekki að fara og hitta fólk, þar á meðal systkini mín og tengdafjölskyldu. Þegar maður er búin að einangra sig er erfitt að fara af stað til að hitta fólk hvort sem það er fjölskyldan eða bara útí búð.

Fékk sjálfstraustið tilbaka

Svona var þetta í nokkur ár eða þar til ársins 2003, þá fór ég á Kristnes í verkjaskóla. Það var sex vikna prógramm og gerði mér mjög gott. Þar losnaði ég vil lyfin, hitti fólk sem var á sama stað í lífinu og komst að því að ég var ekki sú eina sem leið svona. Mér fannst mjög gott að hitta fólk sem var að glíma við svipuð vandamál og ég, við gátum miðlað af okkar reynslu til hvors annars. Má segja að líf mitt hafi farið uppá við síðan þá. Líf okkar í fjölskyldunni breyttist til hins betra, ég varð miklu ánægðari en ég hafði verið í mörg ár og fékk sjálfstraustið tilbaka sem var löngu glatað.

Þegar ég kom af Kristnesi fór ég í stjórn Sálarrannsóknarfélagsins á Akureyri, var þar í sjálfboðavinnu á símavöktum, taka á móti miðlum og ýmislegt fleira. Seinna var ég svo formaður félagsins í 2 ár. Ég held það hafi hjálpað mér heil mikið að hafa farið að starfa hjá Sálarrannsóknarfélaginu, það kom í veg fyrir að ég færi aftur í sama farveginn lokaði mig af og einangrast.

Líf fyrir utan veggi heimilisins

Ég hafði heyrt af Starfsendurhæfingu Norðurlands á Húsavík og að mjög vel væri látið af henni þar. Þegar ég frétti svo að starfsemin væri komin til Akureyrar bað ég heimilislæknirinn minn að skrifa beiðni fyrir mig. Ég komst að og árið 2007 byrjaði ég þar. Fyrstu önnina var ég í undirbúningshóp, sem byggðist á hópefli, líkamsþjálfun, viðtölum og fræðslu í formi fyrirlestra. Um haustið byrjaði ég svo í námi í ýmsum bóklegum greinum og hélt áfram í líkamsræktinni, viðtölum, fræðslu og hópefli.

Í Starfsendurhæfingu Norðurlands komst ég að því að það er líf fyrir utan veggi heimilisins, það var einhver tilgangur með því að fara á fætur á morgnanna, ekki bara til að sinna heimilisstörfum og fjölskyldunni heldur til að takast á við lífið utan veggja heimilisins. Það kostaði mikil átök að hafa sig af stað en það var algjörlega þess virði, hefði ekki viljað missa af þessari reynslu. Allt prógrammið hjá SN kom mér mjög vel. Eftir að ég útskrifaðist þaðan árið 2008 hélt ég áfram í skóla og tók einingar í fjarnámi frá VMA. Í kjölfarið var mér boðin vinna hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands og byrjaði ég þar að vinna sem ritari í 50% starfi í mars 2008. Það að geta unnið gefur manni svo mikið, til dæmis færi á félagslegum tengslum við vinnufélaganna og vináttu. Þegar ég fór að vinna aftur fannst mér ég verða gjaldgengur þjóðfélagsþegn á ný.

Þakklát fyrir reynsluna

Það má segja að ég hafi farið uppá hátind tilverunnar eftir að hafa farið langleiðina á botninn. Það hafa orðið gríðarlegar breytingar í lífi mínu síðustu ár, ég er mun opnari og glaðlegri, finnst ekki eins erfitt að vera innan um fólk og er þar af leiðandi duglegri og nýt þess betur að fara út á meðal fólks.

Ég hugsa til áranna á lyfjunum með hryllingi en það var þó þroskandi að ganga í gegnum þennan tíma. Í dag er ég miklu þakklátari fyrir að eiga fjölskyldu og vini og óendanlega þakklát fyrir að hafa vinnu. Þegar ég lít til baka, þá er ég þakklát fyrir þá reynslu sem ég fékk þó það hafi oft verið erfitt þá er ég reynslunni ríkari.


Í dag brosi ég hringinn framan í lífið og tilveruna og þakka fyrir hvern dag.