Skipulagsskrá

SKIPULAGSSKRÁ
Starfsendurhæfingar Norðurlands.

1. gr.

Starfsendurhæfing Norðurlands er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn. Heimili og varnarþing hennar er á Húsavík. Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum. Hún er ekki háð neinum öðrum lögaðilum.

2. gr.

Stofnendur Starfsendurhæfingar Norðurlands eru: Akureyrarbær, Félags- og skólaþjónusta Þingeyinga, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, Framhaldskólinn á Húsavík, Heilbrigðis- stofnun Þingeyinga, KEA, Lífeyrissjóður Norðurlands, Símenntunarstöð Eyjafjarðar, Svæðis- vinnumiðlun Norðurlands eystra og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar v/vaxtarsamnings Eyja- fjarðarsvæðis, sem því til staðfestu undirrita skipulagsskrá þessa. Aðrir sem gerast stofnaðilar innan sex mánaða frá stofnun Starfsendurhæfingar Norðurlands teljast einnig til stofnenda. Fjárhagslegar skuldbindingar Starfsendurhæfingar Norðurlands eru stofnendum óviðkomandi umfram stofnframlag.

Stofnfé Starfsendurhæfingar Norðurlands er kr. 1.000.000 óskerðanlegt stofnfé að raun- gildi sem lagt hefur verið fram af hálfu KEA kr. 500.000 og af hálfu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar fyrir hönd vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðis kr. 500.000.

3. gr.

Markmið Starfsendurhæfingar Norðurlands er eftirfarandi:
• Að endurhæfa þátttakendur út í vinnu. 
• Að auka lífsgæði þátttakanda. 
• Að auka lífsgæði fjölskyldu hans. 
• Að þátttakandi fari í atvinnu að endurhæfingu lokinni og/eða í áframhaldi nám. 
• Að endurhæfing fari fram í heimabyggð.

Boðið verður upp á heildstæða úrlausn á vanda hvers þátttakanda eins og kostur er á. Verður boðið upp á námstengda endurhæfingu í samvinnu við menntastofnanir á svæðinu auk þess sem náið samstarf verður við Svæðisvinnumiðlun og atvinnulífið.

Þátttakandinn er sjálfur virkur í sinni endurhæfingu frá upphafi þar sem hann kemur með virkum hætti að gerð sinnar endurhæfingaráætlunar.

4. gr.

Stjórn Starfsendurhæfingar Norðurlands er skipuð fimm mönnum til tveggja ára í senn og fimm til vara.

Akureyrarbær tilnefnir tvo fulltrúa, þar af annan sem varamann, Félags- og skólaþjónusta Þingeyinga og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri tilnefna tvo fulltrúa, þar af annan sem varamann, Framhaldskólinn á Húsavík og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga tilnefna tvo fulltrúa, þar af annan sem varamann, KEA og Lífeyrissjóður Norðurlands tilnefna tvo fulltrúa, þar af annan sem varamann, Símenntunarstöð Eyjafjarðar og Svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra tilnefna tvo fulltrúa, þar af annan sem varamann.

Stjórn kýs sér formann og ritara, sem jafnframt skal vera varaformaður til tveggja ára í senn. Formaður kveður til stjórnarfunda og sér til þess að aðrir stjórnarmenn séu boðaðir til þeirra. Einfaldur meirihluti gildir á stjórnarfundum. Forstöðumaður situr að jafnaði stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt.

5. gr.

Stjórn Starfsendurhæfingar Norðurlands ber að vinna að markmiðum stofnunarinnar ogkemur fram fyrir hennar hönd gagnvart þeim sem veita henni fjárhagslegan stuðning. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum stofnunarinnar. Stjórnin ákveður meginþætti í stefnu og starfstilhögun stofnunarinnar og setur sér og miðstöðinni starfsreglur. Boða skal stjórnarfundi með tryggilegum hætti. Stjórnarmaður má ekki taka þátt í meðferð einstaks máls ef málefnið varðar hann persónulega.

6. gr.

Stjórnin skal kalla stofnaðila saman til ársfundar eigi síðar en í apríllok ár hvert. Þar skal
stjórn Starfsendurhæfingar Norðurlands gera grein fyrir starfi hennar og leggja fram endurskoðaða ársreikninga til samþykktar. Þar skal einnig kosning löggilts endurskoðanda og stjórnarfulltrúa fara fram. Á ársfundi gildir einfaldur meirihluti og hver fulltrúi stofnaðila hefur eitt atkvæði nema varðandi breytingar á skipulagsskrá samanber 11. grein.
Ársfund skal boða skriflega með viku fyrirvara. Tillögu um breytingar á skipulagsskrá Starfsendurhæfingar Norðurlands skal getið sérstaklega í fundarboði.

7. gr.

Stjórn Starfsendurhæfingar Norðurlands ræður forstöðumann og setur honum erindisbréf. Forstöðumaðurinn ber ábyrgð gagnvart stjórn stofnunarinnar. Hann annast daglegan rekstur, ræður starfsfólk stofnunarinnar, vinnur að fjáröflun og annast reikningsskil. Forstöðumaður undirbýr fjárhagsáætlun næsta starfsárs, sem skal lögð fyrir stjórnina í nóvember ár hvert.

8. gr.

Tekjur Starfsendurhæfingar Norðurlands, auk vaxta af stofnframlagi, eru frjáls framlög frá ríki, sveitarfélögum, samtökum, fyrirtækjum og einstaklingum og tekjur af þjónustu.

9. gr.

Til þess að Starfsendurhæfing Norðurlands geti náð megintilgangi sínum er stjórninni heimilt fyrir hönd miðstöðvarinnar að eiga samstarf við aðra og gerast í því skyni aðili að samstarfssamningi um lengri eða skemmri tíma.

10. gr.

Reikningsár Starfsendurhæfingar Norðurlands er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.
Forstöðumaður skal eigi síðar en í lok febrúarmánaðar leggja fram eftirtalin gögn fyrir stjórn miðstöðvarinnar til afgreiðslu:

  • Skýrslu um starfsemi síðasta starfsárs.
  • Endurskoðaðan ársreikning liðins starfsárs.

Reikningar Starfsendurhæfingar Norðurlands skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Endurskoðaðir reikningar skulu sendir Ríkisendurskoðun eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé stofnunarinnar hefur verið ráðstafað á því ári.

11. gr.

Skipulagsskrá þessari verður aðeins breytt ef 2/3 fulltrúa á ársfundi samþykkir slíkar breytingar enda sé fundur lögmætur og tillaga um slíkt hafi verið kynnt sérstaklega í fundarboði.

12. gr.

Starfsemi Starfsendurhæfingar Norðurlands verður slitið með ákvörðun 2/3 fulltrúa á ársfundi. Verði starfsemi Starfsendurhæfingar Norðurlands hætt og starfsendurhæfingin lögð niður skal eignum hennar ráðstafað í samræmi við markmið stofnunarinnar.

13. gr.

Um reikningshald fer að lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

14. gr.

Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari, sem og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 7. nóvember 2006.