Rebekka Hrafntinna Níelsdóttir

Veikindi mín hófust á fyrstu meðgöngu minni árið 2013/2014. Ég var með mjög slæma grindargliðnun og líkamlegu einkennin jukust sífellt þar til ég fór í prógram hjá VIRK eftir árs fæðingarorlof. Á þeim tíma, komin með lítið barn, fór andlega heilsan og ég lokaðist af. Eftir að hafa verið hjá VIRK í rúmt ár eða frá árinu 2015-2016, var ákveðið að ég myndi fara í Starfsendurhæfingu Norðurlands.

Upphafið hjá mér var að byrja í Matshóp og því næst í Heilsuhóp. Þar hófst líkamleg uppbygging og ég byrjaði líka í sjúkraþjálfun. Næst stóð mér til boða að fara í Gæfusporin, sem á þeim tíma var hópur fyrir þolendur kynferðislegrar misnotkunar í æsku. Þar var andlega hliðin tekin föstum tökum og unnið út frá þeim punkti þar sem rót líkamlegs heildubrests hafði djúpar rætur að rekja til æsku minnar eins og hjá svo mörgum öðrum í sömu stöðu. Tíminn í Gæfusporunum leið allt of hratt og ég kynnist þar dásamlegum konum og frábæru teymi fólks sem fór í gegnum allt ferlið með okkur. Ég hélt svo áfram í Heilsuhópnum með gott veganesti og frábærar vinkonur og tók næstu skref í átt að vinnumarkaðnum.

Ég var loks orðin partur af einhverri heild, einhverjum hóp og því sagði ég alltaf að ég væri í vinnunni alla virka morgna í vikunni.

Ég fór að styrkjast andlega OG líkamlega því ég mætti alltaf samviskusamlega í mína “vinnu” því ég taldi þennan stað vera mest krefjandi vinnustað sem ég hef nokkurntíman unnið á ævinni! Ég var loks orðin partur af einhverri heild, einhverjum hóp og því sagði ég alltaf að ég væri í vinnunni alla virka morgna í vikunni. Eftir Gæfusporin varð ég ólétt af mínu seinna barni en ég hélt ALLTAF áfram að mæta, stundaði sjúkraþjálfun samhliða og fór þetta á mínum hraða.

Sálarlífið komst á betri stað og ég varð mun glaðari.

Verkirnir voru því miður alltaf til staðar og meðgangan hjálpaði ekki mikið til. Ég þurfti bara að læra að lifa með þeim. Sem betur fer var ég búin að léttast töluvert áður en ég varð ólétt og það hjálpaði til. Ég tók vel eftir í tímunum sem fjölluðu um næringu, tók niður hugmyndir og uppskriftir, gerði heima og glósaði mikið í tímum. Það var einmitt það sem gerði veru mína hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands svo góða. Það að ég tók alltaf vel eftir hvað mér var kennt, ég spurði mikið (þegar ég var orðin nógu þorin) og glósaði helling *stundum nægir nefninlega að skrifa hlutina svo maður muni þá betur og getur gripið í það þegar manni vantar seinna.

Ég hafði gaman af félagsskapnum í SN, fræðslunni og ég vildi halda áfram að undirbúningi á vinnumarkaðinn.

Það var komið sumarfrí hjá Starfsendurhæfingunni 2017. Þegar það var að klárast, eignaðist ég seinna barnið mitt nokkrum vikum fyrir tilsettan tíma. Tveimur vikum seinna byrjaði Starfsendurhæfingin aftur og ég ákvað að koma stutt á hverjum degi (ekki of lengi því ég þurfti að gefa drengnum að drekka). Markmiðið hjá mér var að fara ekki aftur á þann dimma stað sem ég fór á eftir fyrri fæðinguna. Ég hafði gaman af félagsskapnum í SN, fræðslunni og ég vildi halda áfram að undirbúningi á vinnumarkaðinn. Sem betur fer ákváðum við maðurinn minn að hann tæki fullt fæðingarorlof og hann dreifði því á 9 mánuði, en það hjálpaði gríðarlega.

Stuttu seinna hóf ég þátttöku í Atvinnuhópnum. Þar lærði ég að gera ferilskrá, kynningarbréf, hvernig ætti að leita að vinnu, ásamt því að fara í vinnustaðakynningar. Það fannst mér áhugavert og skemmtilegt og ég tók vel í að skoða nýja vinnustaði. Við fórum í Símey og tókum áhugasviðskönnun en næsta skref hjá okkur var að velja okkur vinnustaði til að fara í starfskynningu í 5 daga. Áhugasviðið mitt lá í ferðaþjónustu eða eitthvað tengt skipulagningu og valdi ég mér því Ferðaskrifstofu Norðurlands sem tók vel í að fá mig í kynningu. Það reyndist mér flókið og erfitt setustarf og því óskaði ég eftir því að fara næst í starfskynningu á Viðburðastofu Norðurlands.

Ég hafði brennandi áhuga og þetta kveikti á öllum réttu tökkunum.

Mér leist strax rosalega vel á þann vinnustað og gat verið meira á hreyfingu þannig að líkaminn sagði ekki stopp strax. Í áframhaldi af starfskynningunni þar óskaði ég eftir 30 daga starfsþjálfun sem ég fékk, enda mikið að gera í desembermánuði (2017). Ég var gerð að aðstoðarmanni Rúnars Eff en hann sá um jóladagskrágerðina á Glerártorgi ásamt Davíð eiganda Viðburðastofu Norðurlands. Ég fékk meira að segja að spreyta mig á stóru verkefni eða halda nokkurnvegin utan um dagskrá fyrir aðal pakkasöfnunardaginn á Glerártorgi (að sjálfsögðu undir handleiðslu þeirra). Í miðri starfsþjálfuninni eða daginn fyrir aðal pakkasöfnunardaginn fékk ég svæsið gallsteinakast og var mestmegnið af deginum á spítalanum. Ég lét það ekki á mig fá þó ég þyrfti í rannsóknir og myndatöku daginn eftir og var því örlítið of sein.

Þessi mánuður var æðislegur! Ég hafði brennandi áhuga og þetta kveikti á öllum réttu tökkunum. Síðasti dagurinn í starfsþjálfuninni var 23.des ´17. Ég var að klára mitt ferli og útskrift úr Starfsendurhæfingunni á næsta leyti.

Í vinnu og nám

Um miðjan janúar ´18 hringdi Davíð í mig og sagðist hafa áhuga á að fá mig í vinnu. Við hittumst og fórum yfir þá stöðu að ég gæti ekki unnið fulla vinnu en væri til í að reyna að vinna meira með tímanum. Því var ákveðið að ég kæmi í 1 ½ - 2 tíma á dag í vinnu á Viðburðarstofu Norðurlands. Ég hef unnið margvísleg spennandi og skemmtileg verkefni frá þeim tíma og fengið tækifæri til að láta ljós mitt skína í skipulagningu. Meðal annars stóð ég að konukvöldi á Glerártorgi í mars ´18 (að sjálfsögðu með aðstoð) en Viðburðastofa Norðurlands sér um alla dagskrá sem sett er saman á Glerártorgi. Ég fékk líka tækifæri að vinna með frábæru teymi af fólki við gerð EIN MEÐ ÖLLU um verslunarmannahelgina á Akureyri.

Haustið 2018 lét ég verða af því og skráði mig í fjarnám við Háskólann á Hólum og er að næla mér hægt og rólega í Diploma í Viðburðastjórnun. Sökum líkamlegra verkja ráðlagði námsráðgjafinn mér að taka ekki fullt nám þannig að ég geri eins vel og ég get og fer ekki framúr mér í fullu námi.

Ég fór svo í gegnum örorkumat sumarið 2018 og niðurstaðan var 75% örorka. Eins og staðan var núna veturinn 2018/2019 gat ég sinnt 50% námi því ég réði tímanum sjálf. Vinnan var sú sama og ég fékk að vinna heima ef staðan var þannig á mér. Örorkan er ekki til líftíðar og ég ætla mér að gera eitthvað gott úr þessu enda með skilningsríkan mann, yndislega fjölskyldu og frábæran yfirmann.

Ég hefði aldrei fundið þessa vinnu eða þessa braut í lífinu ef ekki væri fyrir þá staðreynd að ég leitaði til VIRK og var beint þaðan í Starfsendurhæfingu Norðurlands og stend ég í mikilli þakkarskuld við allt það frábæra starfsfólk sem vinnur þar.